Samfélagsskýrsla 2019

Ávarp forstjóra

Við Íslendingar erum í þeirri heillastöðu að búa við náttúru sem veitir okkur þau forréttindi og gæði sem margar þjóðir heimsins státa ekki af. Forréttindin felast í góðu aðgengi að hreinni náttúru sem birtist í hreinu vatni og andrúmslofti sem og hreinum náttúruauðlindum á borð við vatnsafl og jarðvarma með hlutfallslega litlu kolefnisspori. Aftur á móti erum við ekki jafn lánsöm þegar kemur að aðgengi að náttúrulegum og vistvænum byggingarefnum.

Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO

Vatnsafl og jarðvarmi gerir það að verkum að umhverfisáhrif bygginga á líftíma þeirra er lægra en í flestum öðrum löndum. Því er aftur á móti ekki svo farið á byggingartíma. Flest hús á Íslandi eru steinsteypt og er sement innflutt þó svo að fylliefni séu íslensk. Við framleiðslu sements losnar verulegt magn af koltvísýringi í andrúmsloftið eða nálægt 6% af allri losun í heiminum. Húsin eru svo einangruð með steinull sem er framleidd á Íslandi úr íslenskum hráefnum. Að öðru leyti eru hráefni í byggingarvörur eða vörurnar sjálfar innfluttar.

 

Áskoranir BYKO liggja í að gera byggingariðnaðinn og byggingarefni á Íslandi umhverfisvænni. Við viljum stuðla að aukinni notkun timburs, bjóða upp á byggingarefni sem hafa ekki skaðleg áhrif á umhverfið eða heilsu fólks og minnka kolefnisspor við flutninga hvort heldur sem er innanlands eða á milli landa.

 

BYKO lítur svo á að ábyrgð fyrirtækisins sé tvöföld. Hún snýr að eigin rekstri og þá valkosti sem BYKO býður viðskiptavinum sem standa í byggingarframkvæmdum. Umhverfisvandamál eru vandamál samfélagsins, þau stafa af umsvifum mannlegs samfélags og það eru einungis við sem einstaklingar og samfélag sem getum leyst vandamálin. BYKO gerir sér grein fyrir sínu hlutverki og ábyrgð sem stærsta birgja byggingarefnis á Íslandi og veit til hvað aðgerða þarf að grípa til að ná árangri.

 

Ein af áherslum BYKO er að við öll sem eitt lítum okkur nær og vinnum í því að auka umhverfisvitund og breyta hegðun okkar. Þetta er í fyrsta sinn sem BYKO gefur út samfélagsskýrslu í samræmi við meginatriði (core) í viðmiðum Global Reporting Inititative (GRI). Það er von okkar að skýrslan veiti öðrum innblástur en ekki síður að lesendur hafi samband og komi með tillögur um það hvernig við getum bætt okkur enn meira. Saman náum við árangri og slagorðið okkar á vel við í þessum efnum: „Gerum þetta saman.“

 

Efst á síðu

Næsti kafli - Um BYKO

Vefkökur

Velkomin í vefverslun Byko. Þessi síða notar vafrakökur (e. Cookies). Það er til þess að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að halda áfram notkun síðunnar, samþykkir þú notkun vafrakaka.