Sláum grasið
Fallegum garði er vel við haldið og sláttur er stór partur af þessu viðhaldi. Hér förum við yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga við garðslátturinn.

Hvað þarf fyrst að hafa í huga?

Áður en hafist er handa við grassláttinn er mikilvægt að yfirfara þau verkfæri sem þarf í verkið. Gott er að skipta um olíu á sláttuvélinni og brýna vel hnífana. Einnig er brýnt að fylla ekki eldsneyti á vélina á grasinu sjálfu.

Áður en byrjað er að slá er gott hreinsa burtu gamlar plöntuleifar, mosa, steina, rusl og aðra óæskilega hluti úr garðinum sem gætu skemmt sláttuvélarnar.

 • Í fyrsta garðslætti er grassvörðurinn afar viðkvæmur og því er ráðlagt að stilla sláttuvélina í hæstu stillingu. 
 • Forðast skal að slá niður í rótarháls þar sem það skaðar grassvörðinn
 • Mælt er með að nota breytilegar sláttustefnur til að jafna álagið á grasfletinum.
 • Að slætti loknum er mikilvægt að raka saman heyinu sem eftir situr á fletinum. Ef grasið liggur of lengi þá getur það súrnað og skemmt flötinn. 
 • Mikilvægt er að þrífa sláttuvélina strax til þess að hámarka endingu hennar. 

Garðsláttuvélar

Garðsláttuvélar er hægt að fá í öllum stærðum og gerðum en að grunninum til virka þær eins. Flestar koma þær með 4 x hjól, mótor, öryggishandfang, startspotta o.s.frv.

Mótor - Allar bensínsláttuvélar frá BYKO koma með fjórgengismótor sem þýðir að ekki þarf að blanda olíu í bensín eins og þarf við tvígengismótor, olían er í sérhólfi á fjórgengismótor. Á mótornum er nær alltaf rauð eða svört tútta sem nota skal þegar vélin er ræst köld, ýta skal 3 sinnum á túttuna og þá dælist bensín inn í brunahólfið sem hjálpar til við ræsingu.

Handfang - Á handfanginu er alltaf öryggishandfang sem halda þarf inni til að vélin fari í gang og haldist í gangi, ef því er sleppt þá drepst á vélinni. Á sumum vélum er líka drifhandfang sem er þá hinum megin við stöngina og drífur það vélina áfram í slætti. Einnig eru sumar vélar með hraðastilli og er hann þá staðsettur öðru megin á handfanginu.

Sláttuhæð - Flestar sláttuvélar eru með stillanlega sláttuhæð, mismunandi margar stilling eftir gerð sláttuvélar. Á sumum vélum er eitt handfang sem stillir öll hjól, algengara er þó að það þurfi að stilla hvert hjól fyrir sig.

Gangsetning garðsláttuvéla

Áður en garðsláttuvél er sett í gang í fyrsta skipti

 • Setjið mótorolíu í viðeigandi hólf. Nota skal smávélaolíu SAE 15-30 sem fæst í öllum verslunum BYKO.
 • Fyllið bensíntankinn af 95 oktan bensíni sem fæst á næstu bensínstöð. Ávallt skal nota ílát sem ætlað er undir bensín, bensínbrúsar fást í verslunum BYKO.
 • Gangið úr skugga um að engin óhreinindi komist hvorki í bensíntank né olíutank.
 • Komið vélinni fyrir utandyra á þann grasblett sem á að slá.
 • Yfirfarið vélina og athugið hvort ekki sé allt eðlilegt, ef vélin er með grassafnara þarf að tryggja að hann sé nægilega festur.
 • Gætið þess að nægjanlegt bensín (95 okt) og mótorolía (SAE 15-30) sé á sláttuvélinni.
 • Ýtið svo þrisvar á túttuna (rauð/svört) á mótornum.
 • Því næst skal halda öryggishandfangi inni, ef vélin er með hraðastilli skal stilla hann á startstöðu, síðan skal kippa í startspottann og endurtaka þangað til vélin fer í gang.
 • Varist að sleppa startspottanum þegar togað er, fylgið honum eftir til baka í upphafsstöðu.
 • Ef vélin er með drif þá skal passa að halda ekki í það handfang á meðan sláttuvél er gangsett.

Garðsláttur

Í þessu kennslumyndbandi fer Heiðar yfir góð ráð um hvernig skal huga að slátti á grasi í garðinum.

Öryggi í umgengni við notkun garðsláttuvéla

 • Notið alltaf lokaða skó og síðbuxur þegar slegið er, æskilegt að skórnir séu með stáltá
 • Athugið alltaf sláttuflötinn áður en slegið er og fjarlægið alla aðskotahluti.
 • Alltaf skal loka bensíntanki örugglega.

Aldrei skal...

 • Nota garðsláttuvél þar sem einhverjir eru viðstaddir. Þetta á sérstaklega við um börn og gæludýr.
 • Stilla sláttuhæð á meðan sláttvélin í gangi, gerðu það áður en vélin er gangsett.
 • Setja bensín á sláttuvélina innandyra, farið með sláttuvélina út áður en það er gert. Stranglega er bannað að reykja þegar bensín er sett á vélina.
 • Fjarlægja lok af bensíntanki og setja bensín á sláttuvélina á meðan hún er í gangi eða þegar mótorinn er ennþá heitur.
 • Setja sláttuvél í gang þar sem kann að hafa hellst niður bensín, færa skal vélina á öruggan stað.
 • Lyfta eða halla garðsláttuvél í slætti
 • Slá í of miklum halla vegna slysahættu og hættu á að skemma mótor.
 • Hlaupa á meðan slætti stendur, alltaf skal ganga.
 • Fara með sláttuvél í gangi yfir t.d. malarborna stíga eða gangstéttar, drepið á vélinni áður en það er gert.
 • Nota garðsláttuvél ef öryggishlífar eru brotnar eða rifnar, grassafnari er skemmdur eða annað sem getur valdið hættu við sláttinn.
 • Neyta áfengis eða annarra vímugjafa fyrir eða á meðan slætti stendur.

 

Skv. Reglugerð Vinnueftirlitsins um vinnu barna og unglinga er óheimilt að ráða börn innan 16 ára aldurs til starfa sem fela í sér stjórnun á vélknúnum garðsláttuvélum, sbr. viðauka 1B (undanþága frá lista í viðauka 1A). Skv. viðauka 1C er þó heimilt að börn 15 ára og eldri sem vinna hjá fjölskyldufyrirtæki megi vinna með garðsláttuvélar. Varðandi meðferð garðsláttuvéla í vinnuskólum er bent á viðauka 5A og 5B.

Vefkökur

Velkomin í vefverslun Byko. Þessi síða notar vafrakökur (e. Cookies). Það er til þess að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að halda áfram notkun síðunnar, samþykkir þú notkun vafrakaka.