Innskráning
Sláðu inn símanúmer

Góð ráð

Málning - spurt og svarað

Málning - spurt og svarað

Þegar herbergi eru máluð er gaman að velja fallegan lit. En það er ýmilegt sem þarf að hafa í huga sem útkoman verði sem best. Hér má finna svör við nokkrum algengum spurningum.

Unnið að framkvæmdum á heimili
Málning
Svefnherbergi í dökkbláum lit
Algengar spurningar

Er hægt að mála steingólf?

Já. Best er að nota sérstaka gólfmálningu því hún hefur það slitstyrkleik sem þarf. Það þarf að meðhöndla gólfflötinn áður en hafist er handa en fer það alveg eftir aðstæðum. Gamla málaða fleti þarf að slípa yfir og matta með sandpappír og þrífa t.d. með Gjöco Husvask. Málaðar eru 2-3 umferðir. Sum gólfmálning þarf sérstakan grunn eða að þynna 1 umferð til grunnunar, en það fer eftir tegund málningar. Gólfmálningu þarf ekki að lakka yfir.

Gólf í þvottahúsi - hvernig málningu er mælt með að nota?

Þar sem bleyta getur reglulega myndast þá mælum við með olíulakki eða sérstakri gólfmálningu með háu gljástigi sem er slitsterk.

Er hægt að mála flísar?

Gamlar flísar er vel hægt að mála. Fyrst þarf að þrífa flísarnar með t.d. Gjöco Husvask og síðan grunna t.d. með Kópal Magna grunni. Síðan er hægt að mála yfir grunninn og þar er hægt að ráða gljástiginu.

Málun eftir að veggfóður hefur verið fjarlægt?

Það þarf að undirbúa undirlagið vel eftir að veggfóður hefur verið fjarlægt og áður en málað er. Gæta þarf þess að allar límrestar séu fjarlægðar með límuppleysi, því límrestar geta blætt í gegnum málninguna og myndað bletti. Ef gömul málning úr undirlaginu hefur losnað og flagnað með veggfóðrinu þarf að spartla með veggspartli í viðeigandi grófleika í samræmi við annað yfirborð.

Skiptir máli að hafa hvítan ramma eða lista upp við loft?

Það er ekki nauðsynlegt en það getur verið þægilegra. Algengt er að loft séu máluð ca. 2 cm niður á veggi til þess að fá jafna línu við loftið, því kverkin sjálf getur verið ójöfn. Hægt er að nota sérstakan hornamálarapúða til að auðvelda verkið við að fá jafna línu. Einnig er algengt að notaðir séu kverklistar í öðrum lit og gefa þeir meiri dýpt í vegginn svo útkomian verður falleg.

Hvernig málningu er best að nota á loft?

Margir vilja mála loft í sama lit og veggi og fer það allt eftir smekk hvers og eins og hvernig stemningu þú vilt skapa í rýminu. Ljós litur á lofti lætur rýmið virka hærra til lofts og stærra, dekkri litur getur tekið loftið aðeins niður. Loft er oftast málað með mattri málningu en hefðbundin loftamálning er með gljástig 2. Með mattri loftamálningu sjást misfellur og rúlluför síður og lítil endurspeglun ljóss frá loftinu.

Íbúð undir súð - er mælt með að mála súðina í sama lit og veggina?

..eða er betra að hafa hana hvíta?

Við mælum með að mála súðina í hvítum eða ljósum lit. Annars er hætta á að það verði dimmt, sér í lagi ef aðrir litir í íbúðinni eru dökkir. En jú, þetta er auðvitað alltaf smekksatriði, það ert þú sem setur reglurnar á þínu heimili.

Baðherbergi: Þarf sérstaka málningu vegna raka?

Já, þá er notuð votrúms málning eða með akrílhúð. Sértu hinsvegar með veggi sem á eftir að meðhöndla, þá þarf að grunna fyrst og fer það þá eftir efninu (steinn, viður o.s.frv) hvernig grunnur er notaður.

Hvernig næ ég fram "Spa" stemningu inni á baðherbergi?

Fölgrænir litir, jafnvel með aðeins bláum tón koma helst upp í hugann. Annars er auðvitað allt leyfilegt og fer eftir því hvað færir þér persónulega ró. Svo er hægt að finna innblástur á t.d. Pinterest og leita að „spa paint colors“

Ómeðhöndlaður viður: Þarf að grunna hann áður en hann er málaður?

Já, það þarf að nota olíu eða akrílgrunn. Sértu með nýjan eða nýlegan við er algengast að nota akríl grunn. Eldri viður á það til að gulna en þá er best að nota olíugrunn. Það kemur í veg fyrir að gul slikja komi í gegn.

Hvernig næ ég viðaráferðinni í gegnum málninguna?

Þá notar þú glært lakk með lit, eða hálfþekjandi. Þá kemur viðaráferðin í gegn.

Mála eldhúsinnréttingu - hvað þarf ég að gera?

Fyrst þarf að þrífa innréttinguna og ná burt allri fitu með Gjöco Husvask, slípa létt yfir með fínum sandpappír og þurrka yfir með rakri tusku. Mála 2 umferðir með Gjöco Fashion lakki. Hægt að velja gljástig 15 / 40 / 80 eftir því hvernig lokaáferðin á að vera.

Hurðirnar eru gamlar og lúnar. Get ég hresst upp á þær með lakki?

Fyrst þarf að þrífa hurðina og ná burt allri fitu með t.d. Gjöco Husvask. Slípa næst létt yfir með fínum sandpappír og þurrka yfir með rakri tusku. Mála svo 2 umferðir með Gjöco Fashion lakki, en það inniheldur urethane og er þess vegna slitsterkt sem hentar vel fyrir hurðir.

Valmynd