Leita
Innskráning
Sláðu inn símanúmer

Góð ráð

Breyttu með málningu

Gjörbreyttu rýminu með málningu

Hefur þú velt fyrir þér hvaða áhrif ný málning getur haft á rýmið? Með ólíkum aðferðum og réttum litum getur maður nefnilega endurmótað herbergi og hreinlega gjörbreytt ásýnd þeirra. Því getur komið sér vel að þekkja ólíkar aðferðir til að skapa nýja upplifun á stærð og lögun rýma.

Hér að neðan sérðu nokkrar vinsælar leiðir sem geta endurskapað rýmið þitt á áhrifamikinn hátt.

Stofa í ljósgráum lit
Víkka rýmið

Ef þú málar veggi og loft í hvítum lit mun rýmið virka stærra og opnara. Ef ljósbláir litir eru málaðir á veggi og loft hefur það sömu áhrif – það minnir á víðáttumikinn himinn og opið haf. Með dökku gólfi eru oftar en ekki valdir fremur ljósir litir. „Þyngdin“ er þá öll á gólfinu en ljósi liturinn kallar fram birtu.

Veggir og loft málaðir í hvítum lit
Stytta rýmið

Ef þú ert með langt rými getur verið ráð að mála endavegginn í dökkum, hlýjum lit en það mun þannig stytta það. Ef þú notar kaldari dökka liti mun það hafa aðeins minni áhrif en eigi að síður vekja upp sambærileg hughrif.

Oftar en ekki er gluggi á endavegg í rýmum sem þessum og kemur mjög vel út að hafa gardínur í sama lit og endaveggurinn til að ýta enn frekar undir þessa tilfinningu.

Brúnleitur veggur í enda herbergis
Breikka rýmið

Í herbergjum þar sem stutt er á milli veggja er gott að velja dökkt gólfefni og mála loftið einnig í dökkum lit. Þannig mun rýmið virka mun breiðara en það er í raun. Betra er gæta þess að mála ekki rönd niður á veggina heldur fylgja loftlínunni eftir nákvæmlega til að ýta undir áhrifin.

Hér er loftið málað í dökkum, grænbláum lit
Þrengja rýmið

Ef þú ert með mjög breitt rými er gott að hafa endaveggi í sama lit og loftið eða öðrum mjög ljósum, hlutlausum litatón. Hliðarveggi svo í dekkri lit og þannig þrengja rýmið aðeins svo það umvefji mann. Betra er að hafa hliðarveggina í sama dökka litunum því margir afgerandi, sterkir litir geta skapað ákveðið ójafnvægi.

Tveir veggir í meðaldökkum, grænum lit
Lækka loftið

Ef hátt er til lofts og þú vilt lækka lofthæðina þá er gott að mála loftið í dekkri og mun meira afgerandi lit. Þessi aðferð getur gjörbreytt rýmum eins og t.d. baðherbergjum sem eru hvítmáluð eða prýdd ljósum flísum. Einnig er þetta skemmtileg leið til að skapa nýja stemningun í stofunni, svefnherberginu eða raunar hvar sem er! Það er svo smekksatriði hvort maður velur liti sem eru tón í tón eða jafnvel algerar andstæður. 

Ef þú málar rönd með þeim lit sem þú velur á loftinu niður á vegg eða málar loftlista í stíl þá lækkar hæð rýmisins enn frekar.

Loft málað í dökkbláum lit en allir veggir hvítir
Þétta herbergið

Ef þú vilt að rými taki virkilega vel utan um þig þá málar þú loft og veggi í sama dökka litnum en þannig næst mikil dýpt í það. Þetta er oft gert til að kalla fram þessa rólegu, umvefjandi stemningu í svefnherbergjum og sjónvarpsherbergjum. Þessi vinsæla aðferð virkar einnig mjög vel þar sem lofthæðin er mikil.

Brúnir tónar eða aðrir jarðlitir með rauðum undirtónum eru sérstaklega fallegir en einnig geta kaldari, bláir litir hentað vel. Með réttri lýsingu getur rýmið jafnvel virkað stærra.

Hér eru loft og allir veggir málaðir í sama dökka litnum
Stækka herbergið

Langalgengast er að mála loftin hvít eða í hlutlausum, ljósum lit en með því kallar maður fram tilfinningu fyrir aukinni lofthæð. Ef þú málar rönd niður á vegginn með þessum ljósa lit ýtirðu enn frekar undir áhrifin. Þykkir, hvítmálaðir loftlistar verða einnig til þess að ýkja hughrifin.

Hvítmáluð loft halda alltaf gildi sínu en aðrir ljósir litir geta líka verið afskaplega fallegir.

Loft hvítt en allir veggir málaðir í ljósum tón
Tvískiptir veggir

Ef þú vilt lækka loftið en halda því ljósu þá getur þú tvískipt veggjum og málað efri hluta þeirra í dökkum lit. Tvískiptir veggir eru vinsælir og sér í lagi í barnaherbergjum. Það er skemmtilegt að brjóta upp stemninguna á þennan máta. Gott er að líma vegglista eða frauðlista þar sem litirnir mætast því þannig skapast vídd sem er virkilega falleg og línurnar verða algjörlega beinar og fullkomnar.

Neðri hluti veggjanna er málaður í ljósum lit en efri hluti í bláum
Stakur veggur í lit

Að mála stakan vegg í rými í lit mun sennilega aldrei fara úr tísku. Þetta er í raun algengasta og auðveldasta leiðin til að kalla fram mikla breytingu á hvaða herbergi sem er með lítilli fyrirhöfn. Þessi aðferð er t.d. notuð ef gera á bakgrunn sem á að draga að sér athygli og hlaða ákveðinni orku í rýmið. Um þetta er enska heitið „featurewalls“ gjarnan notað, dæmi um það eru myndaveggir, sjónvarpsveggir og við höfðagafla í svefnherbergjum.

Einn stakur veggur í herbergi málaður í sægrænum lit
Litaráðgjöf
Komdu í litaráðgjöf

Litaval setur tóninn í allri hönnun og leggur grunninn að fallegu rými. Jóhanna Heiður, litaráðgjafi BYKO, veitir faglega ráðgjöf við val á rétta litnum fyrir þitt rými.

Skoða nánar

Valmynd