Leita
Innskráning
Sláðu inn símanúmer

Þjónusta

Sjálfbærni

BREEAM og Svanurinn vottunarkerfi

BREEAM og Svanurinn vottunarkerfi

BREEAM er eitt elsta og þekktasta vistvottunarkerfi í heimi fyrir byggingar. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og var stofnað af norrænu ráðherranefndinni árið 1989.

Greninál í skógi
BREEAM vottunarkerfið

BREEAM er eitt elsta og þekktasta vistvottunarkerfi í heimi fyrir byggingar og stendur fyrir British Research Establishment Environmental Assessment Method. BREEAM er breskt vottunarkerfi sem hefur verið aðlagað að alþjóðlegu umhverfi og tekur á fjölmörgum þáttum er varða umhverfi og sjálfbærni, leiðir eigendur, hönnuði og verktaka inn á umhverfisvænni brautir og stuðlar að því að byggingar verði umhverfisvænni og hagkvæmari í rekstri.

Frá árinu 2008 hafa rúm 23 þúsund verkefni verið vottuð í heiminum og á Íslandi hafa verið vottuð 13 verkefni sem komið er árið 2020. Stór verkefni sem eru komin í gang eru t.d. Landspítali Háskólasjúkrahús og Landsbanki og ríkið hefur sett sér stefnu að votta allar framkvæmdir yfir 400 milljónir króna.

Merki BREEAM
Svanurinn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og var stofnað af norrænu ráðherranefndinni árið 1989. Svanurinn er þekktasta umhverfismerki Norðurlandanna og með skrifstofu í hverju landi fyrir sig sem sér um vottanir í sínu landi. Á Íslandi er skrifstofa Svansins hýst hjá Umhverfisstofnun.

Árið 2020 eru samtals um 30 þúsund vottaðra íbúða eða eru í byggingu. Á Íslandi má nefna nokkrar Svansvottaðar byggingar eins og visthús.is, IKEA blokkin, Suðurlandsbraut 24 sem dæmi og á dagskrá eru bygging fyrsta Svansvottaða grunnskóla á Íslandi sem er Kársnesskóli, íbúakjarni í Reykjavík og a.m.k. 40 aðrar íbúðir.

Svansmerkið
Sjálfbær nytjaskógur
Hver er þá munurinn á milli BREEAM og Svansins?

BREEAM er matskerfi sem gefur mismunandi stig í gegnum vottunarferlið. Framkvæmdaraðili hefur nokkuð frjálsræði innan ákveðins ramma en BREEAM krefst fagþekkingar og mikilla upplýsinga. Svanurinn byggir hins vegar á því að

það verður að uppfylla allar kröfur staðalsins og byggingar eru annaðhvort vottaðar eða ekki. Svanurinn hentar því betur í verkefni eins og íbúðarhús á meðan BREEAM er meira notað í aðrar tegundir húsnæðis og eru viðurkenndir BREEAM ráðgjafar og matsfólk sem þurfa að ákveða stig vottunar á hönnunartíma og sannreyna gögn.

Hvað getur BYKO gert til að aðstoða viðskipta vini sína?

Á vefsíðu BYKO má finna þær vörur sem bera Svansvottun og þær vörur sem eru nothæfar í BREEAM vottunarferlið. Undir flokknum “Byggingavörur” er búið að raða saman öllum vottuðum vörum undir heitið “Grænni byggingar”.

Þegar smellt er á vöruna má finna nánari upplýsingar um hvort varan sé vottuð, rekjanleg og beri önnur gögn sem nýtast í vistvottunarferlið. Þar má ýmist finna EPD yfirlýsingu, VOC vottun eða FSC vottun.

EPD yfirlýsing

EPD stendur fyrir “Environmental Product Declaration” sem er umhverfisyfirlýsing tiltekinnar vöru. Hún lýsir eingöngu umhverfiseiginleikum vöru en er ekki staðfesting á að þau uppfylli ákveðna staðla.

VOC vottun

VOC stendur fyrir “Volatile Organic Compounds” sem er rokgjörn lífræn leysiefni. Þessi byggingarefni innihalda lágmarksmagn af rokgjörnum lífrænum efnum og eru oftast að finna í fljótandi efnum, t.d. málningu, terpentínu o.þ.h. efnum sem geta til lengri tíma litið verið skaðleg heilsunni. Þónokkuð margar mismunandi VOC vottanir samþykktar af BREEAM.

FSC vottun

FSC stendur fyrir “Forest Stewardship Council” og stendur fyrir vottun á skógrækt og rekjanleika. Til þess að hægt sé að selja FSC vottað timbur þá þurfa allir milliliðir sem vinna úr timbri, meðhöndla það eða selja það, að vera með rekjanleikavottun. Eina undantekningin frá þessu ef timburvörur eru seldar óbreyttar (ómeðhöndlaðar og timburbúnt ekki brotin upp). BYKO er ekki með rekjanleikavottun en allir helstu birgjar BYKO eru með slíka vottun. Því getur BYKO sagt að keypt sé rekjanleikavottað timbur. BYKO getur aftur á móti ekki sagt að það selji rekjanleikavottað timbur þar sem það er ekki með FSC rekjanleikavottun.

Einnig geta birgjar BYKO haft PEFC vottun eða „Programme for the Edorsement of Forest Certification schemes“ en PEFC vottun er uppbyggð á sama máta og FSC í vottun á skógarauðlindinni og rekjanleika.

Valmynd