Leita
Innskráning
Sláðu inn símanúmer

Þjónusta

Mannauður

Jafnréttismál

Jafnréttismál og jafnlaunavottun

BYKO hefur hlotið jafnlaunavottun sem hefur að meginmarkmiði að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns.

Lógó Jafnlaunavottunar
Starfsfólk BYKO á seinni hluta síðustu aldar
Jafnlaunastefna BYKO
1. Markmið

Markmið jafnlaunastefnu BYKO er að allt starfsfólk njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Stöðugt skal unnið að því að útrýma óútskýrðum kynbundnum launamun, sé hann til staðar. Jafnlaunastefna er jafnframt launastefna félagsins.

2. Ábyrgð

Framkvæmdastjórn félagsins ber ábyrgð á að jafnlaunakerfi þess standist lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.

Mannauðsstjóri er ábyrgur fyrir innleiðingu, viðhaldi, eftirliti, viðbrögðum og stöðugum umbótum jafnlaunakerfisins í samræmi við staðalinn ÍST 85:2012. Mannauðsstjóri ber ábyrgð á að framfylgja jafnlaunastefnu félagsins.

Stjórnendur bera ábyrgð á að starfað sé samkvæmt stefnunni og að framfylgja verklagsreglum sem að henni lúta.

Jafnlaunakerfið nær til alls starfsfólk.

3. Stefna

Jafnlaunastefna félagsins leggur áherslu á hvernig félagið gætir jafnréttis í ákvörðunum er snúa að launum og að starfsfólk hafi jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Til þess að fylgja eftir jafnlaunastefnu félagsins skuldbindur BYKO sig til að:

Innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85 og öðlast vottun í samræmi við lög 56/2017 um jafnlaunavottun.

Setja fram og rýna jafnlaunamarkmið árlega.

Greiða laun og hlunnindi í samræmi við hæfnikröfur starfa, ábyrgð og árangur.

Jafnlaunaviðmið séu málefnaleg og feli ekki í sér beina né óbeina mismunun.

Allar launaákvarðanir séu gegnsæjar, málefnalegar, skjalfestar, rekjanlegar og í samræmi við jafnlaunakerfi félagsins.

Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti.

Árlega fari fram launagreining, innri úttekt og rýni stjórnenda.

Fylgja lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma.

Birta stefnuna á innrivef og kynna hana öllu starfsfólki.

Kynna árlega niðurstöðu jafnlaunagreiningar fyrir starfsfólki félagsins.

Jafnlaunastefna félagsins er órjúfanlegur hluti af launastefnu félagsins og er rýnd eftir þörfum.

Stefnan er aðgengileg almenningi á heimasíðu félagsins.

Kópavogur 7. júlí 2021.

Mynd af fólki fyrir utan BYKO Breiddinni
Jafnréttisáætlun BYKO 2021 - 2024

Jafnréttisáætlun BYKO miðar að því að gera félagið að góðum og eftirsóknarverðum vinnustað þar sem jafnrétti starfsfólks er haft í fyrirrúmi.

Með áætluninni uppfyllir félagið skyldur sínar samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.

Allt starfsfólk ber sameiginlega ábyrgð á að gæta að jafnræði og að jafnrétti sé virt í hvívetna innan félagsins. Í allri starfsemi félagsins skal taka mið af jafnréttisáætlun þess.

Jafnréttisáætlun félagsins og aðgerðaáætlun henni tengd er endurskoðuð a.m.k. á þriggja ára fresti er ótímabundin stefna og endurskoðuð eftir þörfum. Mannauðsstjóri er ábyrgðarmaður áætlunarinnar.

Jafnréttisáætlun skal kynnt öllu starfsfólki og vera aðgengileg á heimasíðu félagsins.

Byko greiðir jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf

Starfsfólki félagsins skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðunum skulu ekki fela í sér kynjamismunun.

Starfsfólki er heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.

BYKO starfrækir vottað jafnlaunakerfi og þar með sett sér jafnlaunastefnu og skuldbundið sig til að fylgja stefnunni eftir. Jafnlaunagreiningar eru framkvæmdar árlega og brugðist við launamun sem ekki byggir á öðru en kyni.

Félagið vinnur stöðugt að því að útrýma óútskýrðum kynbundnum launamun, sé hann til staðar.

BYKO er vinnustaður þar sem kynin eiga jafna möguleika

Auglýsingar um störf skulu taka mið af því að auglýsingin sé ekki konum, körlum eða fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti.

Lögð verði áhersla á að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- eða karlastörf og skal starf sem laust er til umsóknar standa opið jafnt körlum sem konum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Atvinnuauglýsingar taki mið af þessu.

Þegar ráðið er í störf innan félagsins skal miða að því að jafna hlut kynjanna. Umsækjandi af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi skipulagseiningu skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningu þegar hann er jafnhæfur eða hæfari en aðrir umsækjendur. Sama gildir um stöðuhækkanir, breytingar á starfssviði o.s.frv.

BYKO er vinnustaður þar sem starfsfólk getur samræmt vinnu og einkalíf.

Starfsfólk BYKO skal eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri hagræðingu á vinnutíma þar sem því verður við komið.

Starfsfólki skal gert kleift að minnka tímabundið við sig vinnu til að sinna fjölskyldu s.s. vegna umönnunar eða veikinda nákominna.

Öll kynin skulu hvött til töku foreldraorlofs. Starfsfólk sem tekur fæðingar- eða foreldraorlof skal njóta sömu tækifæra og annað starfsfólk s.s. er varðar stöðuhækkanir, launabreytingar o.s.frv.

BYKO líður ekki einelti, ofbeldi né áreitni.

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og kynbundið ofbeldi er ekki liðið innan félagsins og hefur félagið mótað formlegt ferli fyrir tilkynninga því tengdu.

Félagið hefur gert sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni s.s. fræðsla til starfsfólks og að jafna hlutföll kynjanna meðal starfsfólks.

Viðbragðsáætlun félagsins aðgengilegt öllu starfsfólki í starfsmannahandbók.

BYKO gætir þess að allir starfsmenn hafi sömu tækifæri til þjálfunar og fræðslu.

Áhugi og tækifæri á fræðslu og starfsþróun skal vera hluti af árlegu samtali stjórnanda við starfsmann. Stjórnendur skulu beita sér fyrir því að möguleikar séu fyrir hendi sem geti aukið tækifæri á fræðslu og starfsþróun.

Fyrst útgefin: 14.5.2018

Endurskoðuð: 12.8.2021

Jafnréttisáætlunin gildir til þriggja ára og skal endurskoðast í síðasta lagi í ágúst 2024.

Valmynd