Samfélagsskýrsla 2019

Framtíðarsýn og innleiðing stefnu

Umhverfisstefna

BYKO hefur töluverð umhverfisáhrif í sinni eigin starfsemi. Mest eru umhverfisáhrifin þó í gegnum þær vörur eða þjónustu sem BYKO býður. BYKO ber því skylda að leggja áherslu á vöruframboðið ekki síður en eigin starfsemi. Því hefur umhverfisstefna BYKO þrjú meginþemu: vistvænt vöruframboð, fræðslu til viðskiptavina og innra starf. 

Umhverfisstefnuna er að finna á heimasíðu BYKO sem og hvernig hún er innleidd. Á vefsvæði BYKO er nú að finna nákvæma flokkunarhandbók fyrir byggingarúrgang, ýmiss konar fræðslu og upplýsingar um hvaða vörur eru hluti af vistvænu vöruframboði BYKO. Við skilgreiningu á vistvænu vöruframboði BYKO komu upp ákveðin álitamál sem snerta rétta upplýsingagjöf til viðskiptavina. Það er hluti af skyldu okkar að fræða viðskiptavini um umhverfismál, sú fræðsla verður samtímis að vera rétt og hlutlaus. Álitamálin fjalla annars vegar um það hvernig hægt er að segja að vara sé leyfileg í Svansvottað hús án þess að varan sé sjálf Svansvottuð og hins vegar hvort og þá hvernig skuli vinna með rekjanleika svo hægt sé að staðfesta að timbur komi frá sjálfbærri skógrækt.

Vistvænar vörur

Áherslur BYKO á vöruúrval snúa að því að geta boðið viðskiptavinum vörur í öllum vöruflokkum sem leyfilegt er að nota í Svansvottuð hús. Í stuttu máli þýðir það að efna- og byggingarvörur mega ekki vera flokkaðar sem eða innihalda efni sem skilgreind eru sem krabbameinsvaldandi, efni sem geta valdið erfðabreytingum eða haft áhrif á starfsemi innkirtla. Auk þess bannar Svanurinn vissa efna- eða vöruflokka sem af öðrum ástæðum eru taldir sérstaklega varasamir fyrir heilsu fólks eða umhverfið.

Ástæða fyrir þessari áherslu BYKO er að kröfur fyrir vörur sem eru leyfilegar í Svansvottuð hús eru strangari en flest önnur vottunarkerfi gera ráð fyrir. Þessar vörur á því að vera hægt að nota í allar tegundir vottunarkerfa. Til að auðvelda viðskiptavinum að velja þessar vörur hefur BYKO sérmerkt þessar vörur í verslunum og á vefnum. Það veldur aftur á móti nokkrum vandkvæðum þar sem að fólk hefur tilhneigingu til að telja leyfilegar vörur jafngildar Svansvottuðum vörum.


Í verslunum BYKO eru leyfilegar vörur þær vörur sem Svanurinn hefur samþykkt að megi nota í Svansvottuð hús. Það þýðir eingöngu að vörurnar hafa verið rýndar með tilliti til hvort þær innihaldi ákveðin skaðleg efni samkvæmt efnalöggjöf Evrópusambandsins. Nánari greining á vörunum hefur ekki farið fram.

Svansvottaðar vörur hafa aftur á móti farið í gegnum lífferilsgreiningu þar sem skoðuð hafa verið umhverfisáhrif vörunnar á öllum stigum hennar, framleiðslu, notkun og förgun. Kröfurnar á bak við umhverfisvottaðar vörur eru því mun strangari en fyrir vörur sem eru eingöngu leyfilegar í Svansvottuð hús.

Munur á milli Svansvottaðra og leyfilegra vara veldur ákveðnum vandamálum í upplýsingagjöf. BYKO vill ekki gefa til kynna að leyfilegar vörur séu umhverfisvottaðar en vill á sama tíma benda á að þessar vörur er búið að greina út frá ákveðnum eiginleikum. Leyfilegar vörur má augljóslega ekki merkja með Svaninum en þarf samt að gefa til kynna á einhvern máta. BYKO velti fyrir sér að gera sér merki yfir leyfilegar vörur en féll frá því þar sem að sérmerki geta ruglað neytendur og gefið í skyn að vörurnar séu vottaðar. Því var ákveðið að hafa við þessar vörur textann „Leyfilegt í Svansvottað hús“ án allra merkja.

BYKO vill ekki bæta í flóru umhverfismerkja og auka þannig á þann rugling sem stundum ríkir meðal neytenda um hvað einstök merki þýða. Í stuttu máli má segja að mismunurinn á milli vottaðra og leyfilegra vara sé eftirfarandi:

 • Umhverfisvottun nær yfir allan líftíma vörunnar, framleiðslu, efnainnihald, notkun og förgun.
 • Merking á leyfilegum vörum nær eingöngu yfir efnainnihald vörunnar.

 

Vörur sem eru merktar með norræna umhverfismerkinu Svaninum, Evrópublóminu eða þýska umhverfismerkinu Bláa Englinum eru sjálfkrafa leyfilegar í Svansvottuð hús.

Vistvænt vöruframboð

Aðferðafræði BYKO er að geta boðið viðskiptavinum upp á val um vistvænar byggingarvörur. Það þýðir samtímis að BYKO hefur ekki tekið ákvörðun um að banna aðrar vörur þó að sú umræða hafi átt sér stað. Í augnablikinu er áherslan því á að auka framboð af vistvænum vörum og hefur BYKO greint vöruframboð nokkurra lykilbirgja með hliðsjón af viðmiðum Svansins. Vörulista sem er vísir að vöruvali fyrir byggingu á vistvænu húsi er að finna á vefsvæði BYKO. Á árinu 2020 verður aukið við vöruúrval af umhverfisvænum vörum.

Rekjanleiki timburs

BYKO leggur áherslu á að allt timbur sem fyrirtækið selur sé úr sjálfbærri skógrækt. Helstu merki fyrir sjálfbæra skógrækt eru Forest Stewardship Council (FSC) og Programme for the Endorsement of Forest Certification (PEFC).

Vandamál beggja vottunarkerfa er að eðli þeirra er tvískipt, annars vegar er það vottun á sjálfbærri skógrækt og hins vegar vottun á rekjanleika í virðiskeðju.Fyrri hlutinn felur í sér að skógræktin þar sem trén vaxa verður að fylgja ákveðnum viðmiðum um sjálfbæra skógrækt. Seinni hlutinn er að allir þeir sem koma að því að vinna timbrið eða að meðhöndla það verða að hafa rekjanleikavottun. Meðhöndlun felur meðal annars í sér að brjóta upp timburbúnt og selja borð eða lektur í stykkjatali. Um leið og búntin eru brotin upp eða gögnin fjarlægð hverfur rekjanleikinn. Rekjanleikavottun felur í sér að hafa verkferla sem sýna fram á að keypt timbur er frá sjálfbærri skógrækt og hvernig uppruni timburs er rakinn frá innkaupum til sölu. Allir milliliðir í virðiskeðjunni verða að hafa rekjanleikavottun.

Allt timbur sem BYKO kaupir kemur úr sjálfbærri skógrækt og er með rekjanleikavottun. BYKO er ekki með rekjanleikavottun frekar en nokkur annar söluaðili á Íslandi. Strangt til tekið getur BYKO því ekki sagt að það selji FSC eða PEFC vottað timbur nema þegar selt er í búntavís eða óbrotnum einingum (umbúðum). BYKO hefur aftur á móti komið upp verkferlum fyrir aðila sem eru að byggja Svansvottuð hús. Þessi ferill er ekki vottaður af FSC en er samþykktur af Svaninum þegar byggja á Svansvottuð hús.

BYKO getur ekki formlega sagt að timbur sem það selur sé FSC eða PEFC vottað. BYKO getur aftur á móti sagt að timbur sem það kaupir sé rekjanleikavottað.

Efst á síðu

Heimsmarkmiðin

Á miðju ári 2019 hóf BYKO að skilgreina hvaða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna væru viðeigandi fyrir starfsemi fyrirtækisins.

Markmið ársins voru tvíþætt:

 • Að auka skilning á Heimsmarkmiðunum og hvernig þau hafa áhrif á starfsemi BYKO.
 • Að skilgreina kjarnamarkmið sem BYKO hyggst hafa að leiðarljósi í framtíðinni.
   

Í framhaldinu verða sett markmið sem auðvelda munu skýrslugjöf.

Vegferðin

Í upphafi voru þær forsendur gefnar að skipta Heimsmarkmiðunum upp í þrennt: kjarnamarkmið, mikilvæg markmið og jaðarmarkmið. Öll markmiðin skipta máli í heildarsamhenginu en það er mismunandi hversu vel þau eiga við starfsemi BYKO. 

 • Kjarnamarkmið eru þau markmið sem eru mest viðeigandi fyrir starfsemi BYKO en styðja samtímis við þau markmið sem eru skilgreind sem mikilvæg.
 • Mikilvæg markmið eru markmið sem BYKO verður að hafa innan sjóndeildarhringsins en unnið er að í gegnum kjarnamarkmiðin.
 • Jaðarmarkmið eru markmið sem var erfitt að heimfæra beint með hliðsjón af starfsemi BYKO á Íslandi.

 

Við ákvarðanatöku um það í hvaða flokki markmið lentu var litið til þess hversu viðeigandi undirmarkmið Heimsmarkmiðanna eru fyrir BYKO og hverjar helstu áskoranir eru á Íslandi eins og þær eru skilgreindar af íslenskum stjórnvöldum.

Kjarnamarkmið

Ákveðið var í upphafi að hafa ekki fleiri en fjögur kjarnamarkmið til að dreifa ekki kröftum um of. Þegar upp var staðið komu markmið 7, 11, 13 og 15 einnig sterklega til greina fyrir kjarnamarkmið. Þau féllu annars vegar á því að tenging undirmarkmiða við starfsemi BYKO var ekki nægilega sterk og hins vegar á því að þau hefðu þurft að koma í stað annarra kjarnamarkmiða. Það þarf einnig að vera hægt að tengja markmið BYKO við undirmarkmið og helstu áskoranir á Íslandi. Helstu röksemdir fyrir kjarnamarkmiðunum er að finna hér á eftir.

Jafnrétti kynjanna – markmið 5

Þrjár af fjórum helstu áskorunum á Íslandi geta átt mjög vel við BYKO:

 • Kynjaskipting starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval: BYKO starfar í karllægum heimi. Hefðbundnar iðngreinar eiga undir högg að sækja og enn frekar hjá ungum konum en körlum.
 • Misvægi kynja í efstu lögum atvinnulífsins: Fyrir BYKO fjallar þetta um að ná jafnvægi kynja á öllum stjórnunarstigum, framkvæmdastjórnum, verslunarstjórum, öðrum stjórnunarstöðum og hjá öðrum starfsmönnum.
 • Hækkun hlutfalls feðra sem taka fæðingarorlof:  Þar sem BYKO er karllægur vinnustaður er mikilvægt að skapa forsendur og fyrirtækjamenningu sem auðveldar karlmönnum að taka fæðingarorlof til jafns við konur.

Góð atvinna og hagvöxtur – markmið 8

Tvær af helstu áskorunum á Íslandi auk undirmarkmiða sem snerta hagvöxt í sátt við náttúruna og jafnlaunavottun eiga vel við starfsemi BYKO:

 • Aukin framleiðni í sátt við umhverfi og samfélag: BYKO hefur á seinustu tveimur árum lagt áherslu á að auðvelda fagaðilum að byggja á heilnæman og vistvænan hátt með því að leggja áherslu á að bjóða byggingarvörur sem nota má í Svansvottuð hús. BYKO áætlar að leggja enn meiri áherslu á þennan málaflokk sem tengist einnig nýsköpun innan mannvirkjagerðar.
 • Jöfn tækifæri og jöfn laun fyrir sömu vinnu: BYKO er nú þegar með jafnlaunavottun. Það má gera betur með því að jafna tækifæri allra og þá frá víðara sjónarhorni en einungis kynjasjónarmiðum.

Nýsköpun og uppbygging – markmið 9

Fyrir starfsemi BYKO fjallar þetta um undirmarkmið 9.4 þar sem segir að atvinnugreinar verði endurskipulagðar til að gera þær sjálfbærar, nýting auðlinda verði skilvirkari og að fyrirtæki innleiði umhverfisvæna tækni og verkferla eftir bestu getu. Áherslur BYKO á að auðvelda fagaðilum vistvænar framkvæmdir með umhverfisvænu vöruframboði snúa að þessu markmiði.

Ábyrg neysla og framleiðsla – markmið 12

Markmið 12 er meginmarkmiðið fyrir BYKO þar sem flestum öðrum markmiðum er hægt að ná með ábyrgri neyslu og framleiðslu. Sóun er stórt umhverfisvandamál og þó svo að í þessu markmiði sé mikið rætt um matarsóun þá yfirfærir BYKO það yfir á alla sóun. 

Áherslupunktar okkar eru:

 • Innleiðing hringrásarhugsunar til að tryggja að nýting auðlinda fari ekki yfir þolmörk náttúrunnar. Hringrásarhugsunin fjallar um að vörur séu hannaðar þannig að aukaafurðir úr einu ferli eru hráefni í annað framleiðsluferli. Vörur og efni eru þannig ekki urðað eða brennt heldur endurnýtt í samfélaginu, sem leiðir til næsta punkts.
 • Minnkun úrgangs, aukning endurvinnslu og endurnýtingar sem er afleiðing hringrásarhagkerfisins.
 • Skilvirk og sjálfbær nýting náttúruauðlinda. BYKO er stór innflytjandi á timbri og ber ábyrgð á því að náttúruauðlindir séu nýttar á sjálfbæran máta auk þess að auka notkun á sjálfbærum byggingarefnum.

 

Tengt ofangreindum Heimsmarkmiðum og áskorunum á Íslandi hefur BYKO sett sér mælanleg og tímasett markmið. 

Mikilvæg markmið

Jaðarmarkmið

Mikilvæg markmið og álitamál

Í upphafi var ekki ljóst hvaða markmið yrðu kjarnamarkmið. Við fyrstu sýn var líklegt að markmið 7 (sjálfbær orka) og markmið 13 (aðgerðir í loftslagsmálum) yrðu kjarnamarkmið vegna mögulegra afleiðinga loftslagsbreytinga. Frá því var fallið nokkuð fljótt þar sem að undirmarkmið og áskoranir á Íslandi eru í þá átt að tryggja orkuöryggi, auka hlutfall endurnýjanlegrar orku og gera viðbragðsáætlanir við vá af völdum loftslagsbreytinga. BYKO er ekki orkufyrirtæki og viðbragðsáætlanir eru í höndum stjórnvalda en ekki einstakra fyrirtækja og því eru þessi markmið utan beins áhrifasviðs BYKO. BYKO getur aftur á móti ekki litið fram hjá því vandamáli sem loftslagsbreytingar eru en út frá Heimsmarkmiðunum er best að vinna með loftslagsbreytingar í gegnum markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu.

Markmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög kom til greina sem kjarnamarkmið og þá út frá því að borgir og íbúðasvæði eigi að vera sjálfbær. Tengingin er að BYKO er byggingarvörusali og vill stuðla að sjálfbærum byggingum sem felur í sér mikla nýsköpun. Því var ákveðið að gera markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu að kjarnamarkmiði og vinna að markmiði 11 í gegnum það.

Markmið 15 um líf á landi var kjarnamarkmið í upphafi en því var skipt út í annarri umræðu framkvæmdastjórnar. Markmiðið fjallar um að tryggja sjálfbæra nýtingu vistkerfa og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. BYKO er stærsti innflutningsaðili byggingartimburs á Íslandi og því er markmiðið mjög viðeigandi. Auk þess er BYKO að hefja kolefnisjöfnun með skógrækt á landsvæði í eigu eigenda BYKO. Að lokum var þó ákveðið að nálgast markmið 12 út frá ábyrgri neyslu og framleiðslu og leggja áherslu á að allt timbur sé úr sjálfbærri skógrækt.

Eitt af því sem skilgreinir hve hættuleg efni og efnavörur eru í samfélaginu er hversu skaðleg þessi efni eru vatnalífverum. Með því að velja minna skaðlegar efnavörur er einnig verið að koma í veg fyrir að efni skaðleg vatnalífverum berist út í umhverfið. Það er í samræmi við áherslur BYKO að bjóða upp á vörur leyfilegar í Svansvottuð hús. Því voru bæði markmið 6 um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu og markmið 14 um líf í vatni skoðuð sérstaklega. Markmið 6 fjallar um losun hættulegra efna og efnablanda og því var það sett sem mikilvægt markmið í ljósi þess að markmið 14 fjallar meira um sjálfbærar fiskveiðar og súrnun sjávar sem fellur undir jaðaráhrif út frá starfsemi BYKO.

Þótt markmið séu ekki skilgreind sem kjarnamarkmið hefur það ekki í för með sér að BYKO horfi ekki til þeirra eða setji ekki markmið tengd þeim. Það þýðir eingöngu að aðgerðir og markmið fyrir mikilvæg markmið tengjast starfseminni í gegnum kjarnamarkmiðin.

Efst á síðu

Mannauðsstefna

Mannauðsstefna BYKO er samsett úr þremur stefnum:

 • Jafnlaunastefna sem innleidd var á árinu 2019. Allar úttektir vegna jafnlaunavottunar fóru fram á árinu en ekki náðist að klára vottunina á árinu, hún fékkst í febrúar 2020.
 • Aðgerðaráætlun í jafnréttismálum, byggð á jafnlaunastefnunni, í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Á árinu skrifaði fyrirtækið undir Jafnréttisvog FKA en tilgangur þess verkefnis er að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60% í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.
 • Starfsmannastefna. 
   

Að auki hefur BYKO markað sér stefnu á sviði persónuverndar en það snertir bæði mannauð fyrirtækisins og viðskiptavini. 

Efst á síðu

Innleiðing stefnu

Innleiðing stefnu BYKO stendur yfir í nokkrum verkefnum. Tölulegar upplýsingar sem unnar voru fyrir þessa skýrslu fyrir 2019 munu síðan verða grunnur að markmiðasetningu fyrirtækisins á næstu árum.

Bílar, tæki og hleðslustöðvar

Á árinu 2019 voru teknir í notkun tveir rafmagnsbílar og einn tengiltvinnbíll ásamt því að búið er að rafvæða 62 af 96 tækjum og vinnuvélum. Í apríl 2019 voru opnaðar tvær hleðslustöðvar frá Orku náttúrunnar fyrir utan verslun BYKO í Breidd þar sem fjórir bílar geta hlaðið í einu. Í maí 2019 voru opnaðar tvær hleðslustöðvar frá Orku náttúrunnar við verslun BYKO á Selfossi þar sem fjórir bílar geta hlaðið í einu og þar af er ein hraðhleðslustöð. Í október 2019 var opnuð ein hleðslustöð frá Orku náttúrunnar við verslun BYKO á Akureyri. Á öllum starfsstöðvum þar sem hleðslustöðvar hafa verið settar upp er gert ráð fyrir stækkunarmöguleikum og því auðveldlega hægt að bæta við eftir þörfum.

Hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla starfsfólks voru settar upp á Skemmuvegi og getur allt starfsfólk sótt um aðgang sér að kostnaðarlausu. Á fyrri hluta árs 2019 voru settar upp fjórar stöðvar og á seinni hluta ársins var tveimur til viðbótar komið fyrir og hafa því sex stöðvar verið settar upp.

Orkunotkun húsnæðis

BYKO hefur gripið til aðgerða til að draga úr notkun á hita og rafmagni. Framkvæmt er reglubundið eftirlit með loftræsingu, snjóbræðslu og hitablásurum til að koma í veg fyrir orkusóun og svo hægt sé að grípa til aðgerða sé þess þörf. Loftræsikerfi eru keyrð niður á nóttunni á flestum stöðum fyrirtækisins og útiljósin eru stýrð á sólúrsbirtuskynjara sem slekkur á þeim þegar orðið er bjart. Á árinu var ljósgjöfum skipt út fyrir LED-ljósgjafa en um 80% orkusparnaður fæst við notkun á LED-perum í samanburði við hefðbundnar glóperur. Í kjölfarið fylgir minni úrgangur þar sem ekki þarf að skipta jafn oft um perur og því minna gengið á auðlindir. LED-lýsing hefur því ýmsa hagnýta eiginleika og hefur verið ákveðið að allar verslanir BYKO skipti yfir í þessa lýsingu. BYKO á Akureyri skipti út allri lýsingu í verslun sinni á árinu og verslun BYKO í Breidd skipti út að hluta til og er áætlað að ljúka útskiptum árið 2020. Verslun BYKO á Selfossi fer líka í útskipti árið 2020 en til að gefa glögga mynd af sparnaði er ábataútreikningur fyrir verslun BYKO á Selfossi áætlaður 120 þúsund kWh á ári. Húsnæði annarra verslana eru ekki í eigu BYKO en málin eru í skoðun með húseigendum.

Vistvænt vöruframboð

BYKO leggur áherslu á að auðvelda vistvænar framkvæmdir og vera skýr valkostur viðskiptavina þegar kemur að umhverfisvænum lausnum. Hluti af umhverfisvænu vöruframboði BYKO er tilgreint á heimasíðu fyrirtækisins með umhverfismerkingum sem upplýsingagjöf til að leiðbeina viðskiptavinum. Vinna stendur yfir á árinu 2020 við að gera allt umhverfisvænt vöruframboð sýnilegt á heimasíðu og þróa þar með auðveldara aðgengi viðskiptavina að vöruvali.

Á heimasíðu BYKO má finna vörulista sem er vísir að vöruvali fyrir byggingu á vistvænu húsi og á árinu 2020 verður vöruúrvalið af umhverfisvænum vörum aukið. BYKO spáir því að innan fárra ára verði stór hluti bygginga úr umhverfisvænum vörum og vottaðar sem slíkar.

Kolefnisjöfnun

Það má segja að BYKO hafi „fyrir slysni“ kolefnisjafnað hluta starfsemi sinnar allt frá 1987 en þá hófu eigendur og starfsmenn árlega gróðursetningu að Drumboddsstöðum á Suðurlandi. Hugmyndin var að rækta mætti nytjaskóg og skila þannig til baka til náttúrunnar á móti því timbri sem fyrirtækið seldi í verslunum sínum. Frá þeim tíma og fram til 2007 voru gróðursettar um 130.000 trjáplöntur. Á þessum tíma hefur náttúrulegt birki einnig breiðst mikið út af sjálfsdáðum.

BYKO hóf samstarf við Skógræktina haustið 2019 til að gera úttekt og meta bindingu skógarins. Náttúrulega birkið í skóginum hefur breiðst mikið út á rúmum 30 árum, flatarmál þess hefur rúmlega þrefaldast og meðalhæð þess hefur hækkað mikið. Bindingarmat til bráðabirgða út frá fyrirliggjandi upplýsingum var framkvæmt haustið 2019. Frekari vinna við mat á bindingu skóglendisins að Drumboddsstöðum fer svo fram sumarið og haustið 2020. Lokaskýrslu er síðan að vænta í lok árs 2020.

Hlutverk Skógræktarinnar felst í gagnaöflun og úrvinnslu gagna. Arnór Snorrason og Björn Traustason á loftslagsdeild rannsóknasviðs Skógræktarinnar hafa viðað að sér gögnum um bæði ræktaða skóginn og náttúrulega birkiskóginn á Drumboddsstöðum. Fyrir liggur kortlagning Skógræktarinnar af öllum birkiskógum í landinu sem gerð var á árunum 2010–2014. Einnig er fyrir hendi gróf afmörkun á ræktuðum skógi, bæði í gagnagrunni Skógræktarinnar og gögnum skógræktarráðunauts Skógræktarinnar á Suðurlandi. Við samanburð á þeim gögnum og gögnum Sigvalda Ásgeirssonar skógfræðings frá 1988 kemur ýmislegt í ljós: Náttúrulegi birkiskógurinn og kjarrið þakti um 54 hektara lands 1988 en var nokkuð gisinn. Þekjuvegið flatarmál miðað við 100% krónuþekju var þá tæpir 27 hektarar. Sigvaldi skráði einnig að náttúrulegt birki væri byrjað að dreifa sér á 57 hekturum til viðbótar. Flatarmálsvegin hæð birkisins var 1,6 metrar. Nú, 30 árum seinna, er flatarmál náttúrulega birkisins 188 hektarar og miðað við 100% þekju er flatarmál þess 88 hektarar. Það hefur með öðrum orðum rúmlega þrefaldast. Meðalhæðin hefur líka aukist frá 1,6 í 2,2 metra á þessum tíma. Þetta sýnir hversu mikil áhrif beitarfriðun getur haft á sjálfgræðslu birkis. Hvað varðar ræktuðu skógana hafði aðeins verið gróðursett í fjóra hektara að Drumboddsstöðum haustið 1988. Samkvæmt mati Arnórs og Björns er flatarmál ræktaðra skóga nú um 45 hektarar. Ræktuðu skógarnir hafa því tífaldast að flatarmáli.

Það sem gróðursetning hefur ekki verið framkvæmd síðan árið 2007 stendur til endurvekja þá hefð sumarið 2020, fyrst og fremst út frá gleðilegum gildum sem einkenndu þessar árlegu ferðir en um leið í þeirri viðleitni að gera enn betur og stuðla að kolefnishlutleysi rekstrar.

Efst á síðu

Fyrri kafli - Um BYKO
Næsti kafli - Mælikvarðar

Vefkökur

Velkomin í vefverslun Byko. Þessi síða notar vafrakökur (e. Cookies). Það er til þess að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að halda áfram notkun síðunnar, samþykkir þú notkun vafrakaka.