Innskráning
Sláðu inn símanúmer

Nauta skirt steik með chimichurri

„SKIRT“ NAUTASTEIK MEÐ CHIMICHURRI

Hér er á ferðinni einföld en algjörlega dásamleg uppskrift af grill-snittu. Við notum „skirt“ skurð af nauti, en það tiltölulega ódýr vöðvi á kvið sem er á sama tíma mjög bragðmikill og safaríkur. Að sjálfsögðu má nota aðra vöðva, en við mælum með mögrum bitum í þessa uppskrift, s.s. sirloin, lund og flank.

Chimichurri er argentísk sósa sem minnir örlítið á pestó og smellpassar með öllu kjöti, enda er hún ættuð frá Mekka nautakjötsins.

Grillað nautakjöt á stökku brauði
Hráefni

800 gr. „skirt“ steik
Salt og pipar eftir smekk
1 msk. ólífuolía
4 sneiðar af súrdeigsbrauði
1 hvítlauksrif

Chimichurri

100 ml. ljós ólífuolía
1 msk. þurrkað oregano
1 tsk. nýmalaður pipar
1 þurrkaður chili
6 stilkar steinselja
1 hvítlauksrif
1 msk. ljóst edik
1 skarlottulaukur
1 lime
½ tsk cumin
1 tsk. sjávarsalt

Sósan er unnin saman í mortéli
Kjötið saltað og piprað áður en það er eldað
Grillað nautakjöt á stökku brauði
Aðferð

1. Best er að byrja á að gera sósuna. Þess vegna mætti undirbúa hana kvöldinu áður en þannig koma öll brögðin „saman“ í rólegheitum. Salt, hvítlaukur, cumin, oregano, chili og svartur pipar er sett í mortél og stappað saman uns það verður að mauki. Þá er safi úr einu lime, edik, olía, saxaður skarlottulaukur og steinselja blandað saman við.

2. Saltaðu og pipraðu kjötið og penslaðu með ólífuolíu. Grillaðu á hvorri hlið í ca. 5 mínútur.

3. Penslaðu brauðið með ólífuolíu og nuddaðu hvítlauknum á það þegar þú snýrð því á grillinu. Brauðið ætti að þurfa ca. 2 mínútur á hvorri hlið. Leyfðu kjötinu að hvíla um stund – það er ekki nauðsynlegt að bera það fram rjúkandi heitt.

4. Kjötið er skorið í 1 cm. þykkar sneiðar, lagt yfir brauðið og að lokum er sósunni dreift yfir snitturnar. Einfalt og gott! Verði ykkur að góðu.

Sósan minnir á pestó
Skirt steik er best elduð medium
Snitturnar bornar fallega fram á viðbretti
Valmynd