Innskráning
Sláðu inn símanúmer

Góð ráð

Hvernig á að þrífa reiðhjól?

Hvernig á að þrífa reiðhjól?

Við notkun á reiðhjólum safnast óhjákvæmilega óhreinindi á það – allt frá ryki og salti yfir í tjöru og drullu. Þar sem hjól er í raun bara samansafn hluta sem hreyfast er mikilvægt að halda öllum pörtum þess hreinum og fínum til að tryggja hreyfanleika þeirra allra.

Vel búinn reiðhjólamaður úti í íslenskri náttúru
Þrífa stellið

Hvort sem það eru dekkin, gírarnir eða stellið sjálft sem eru skítug þá hefur það áhrif á hversu auðvelt og þægilegt er að hjóla. Svo er auðvitað staðreyndin sú að hreint hjól ryðgar síður. Þannig er viðhald ekki bara aðeins til að gera hjólatúrinn þægilegri heldur eykur það líka endingartíma reiðhjólsins.

Í raun þarf bara fjórar hluti til að þrífa stellið á hjólinu: Sápu (e.t.v. bílasápu en hún leysir betur upp óhreinindin), svamp, volgt vatn og fötu. Gætið þess að hafa ekki of grófan svamp svo að lakkið rispist ekki. Að sama skapi er gott að byrja á því að skola hjólið vel með svampi svo sandur og annað gróft ryk sé ekki á lakkinu þegar það er nuddað með svampi. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að bóna stellið með bílabóni svo hjólið verða gljáandi og fínt! 

Það er lítið mál að þrífa reiðhjólið
Þrífa og smyrja keðjuna

Þegar keðjan er þrifin er best að byrja á að nota keðjuhreinsi til losa af gömlu og skítugu olíuna Efninu er úðað á keðjuna og leyft að standa í ca. 10 mínútur. Þá er það skolað vandlega af undir vatnsbunu. Ef óhreinindi sitja eftir má setja nokkra dropa af uppþvottalög á kveðjuna, snúa petölunum í hringi og halda um keðjuna með rökum svampi. Þetta má endurtaka þar til keðjan er orðin hrein og fín. Þá er ekki verra að hafa uppþvottabursta við höndina til að skrúbba í burtu óhreinindi sem erfitt er að ná af.

Ekki má gleyma að smyrja keðjuna aftur þegar hún er orðin hrein og þurr. Til þess er best að nota þartilgerða olíu. Nokkrir dropar eru settir á keðjuna og pedölunum snúið þar til olían hefur makast um alla kveðjuna og gírana. Sumum finnst einfaldar að hjóla bara nokkra hringi og skipta um gíra á meðan því stendur til að dreifa olíunni.

Best er að þrífa gíra og keðju með þartilgerðu efni
Hreinsiefni og áhöld

Þrífa dekkin

Þannig er hreinlega auðveldara og öruggara að hjóla á hreinum dekkjum. Einföld leið til að þrífa dekk er með uppþvottabursta, volgu vatni og sápu. Þá er einnig hægt að nota dekkjahreinsi fyrir dýpri þrif, en einnig veitir slíkt betri vörn gegn sliti. Hér má aftur nýta sér bílahreinsivörur.

Gott er að þrífa einnig gjörðina vel með sápu og svampi, sem og bremsupúðana. Þetta tryggir aukið öryggi á hjólinu. Gætið þess þó að ekkert hreinsiefni verði eftir á þeim flötum.

Síðast en ekki síst er að þrífa dekkin sjálf
Annað viðhald

Fyrst fólk er á annað borð farið að sinna viðhaldi á hjólinu er ekki vitlaust að huga að öðrum atriðum. Eru bremsupúðarnir orðnir slitnir? Er keðjan e.t.v. orðin of gömul og léleg? Þarf að stilla gírana betur? Pumpa í dekkin? Stilla hnakkinn eða stýrið? Eru ljósin og hjálmurinn á sínum stað? Vantar kannski hjólavettlinga? Ef þú hefur tikkað í öll boxin, þá ættum við að vera klár í hvaða hjólatúr sem er! 

Fátt er betra en hjólreiðatúr í kvöldsólinni
Fylgihlutir

Valmynd