Þegar pallurinn er byggður þarf að hafa í huga hvaða pallaefni skal nota og hvernig jarðvegurinn er undir. Hér er m.a. farið yfir hvaða efni er gott að nota í dregara, bil milli dregara, dýpt á holum, hvernig jarðvegurinn er, klæðning á palli og hvernig skrúfur og nagla er gott að nota.
Þegar sólpallur er byggður er gjarnan notuð 45x145 mm gagnvarin fura í dregara sem hafðir eru með 150 til 200 cm millibili.
Ef jarðvegur er moldarkenndur og gljúpur er nauðsynlegt að grafa holur og steypa undirstöður fyrir dregarana með um 200 cm millibili.
Dýpt á holum er gjarnan um 70-80 cm.
Ef jarðvegur er frostlaus og fastur fyrir getur verið gott að nota galvaniseraðar járnundirstöður, 100x100 mm.
Ofan á dregarana eru settir bitar úr gagnvarinni furu, 45x95 mm eða 45x120 mm, en stærð þeirra fer gjarnan eftir bilinu sem er á milli dregarana.
Algengasta fjarlægð milli bita er 55 cm. Til að festa bita við dregara er gott að nota byggingarvinkla.
Sólpallurinn er klæddur með gagnvarinni furu, 22x95 eða 27x95 sm og fer það eftir álagi sem verður á pallinum hvor þykktin er notuð.
Best er að nota ryðfríar skrúfur eða nagla til að festa klæðningarefnið niður. Haft er 5 mm bil milli klæðningarborða.
Ef pallurinn er lagður beint á jarðveg þarf að ganga úr skugga um að hann sé algjörlega frostlaus svo að pallurinn verði stöðugur. Nauðsynlegt er að jafna jarðveginn vel undir pallinum og er þunnt lag af sandi notað sem efsta lag. Gott er að leggja jarðvegsdúk ofan á jarðveginn til að koma í veg fyrir gróðurmyndun undir pallinum. Bitarnir eru lagðir beint á jarðvegsdúkinn/sandinn og er gott að festa þá niður með steypustálsteinum sem reknir eru niður hjá þeim. Hentug efnisstærð á bitum er 45x45 mm gagnvarin fura. Í þessari gerð af pöllum er aðallega notuð 22x95 mm klæðning og er gengið frá henni eins og fyrr var lýst.
Skemmuvegi 2a
200 Kópavogur
Kt. 460169-3219
Vsk.nr. 03394