Innskráning
Sláðu inn símanúmer

Góð ráð

Innanhúss

Parket og flísar - Góð ráð

Að leggja parket og flísar

Hvað þarf að hafa í huga þegar við leggjum parket eða flísar? Hér má finna nokkur góð ráð þegar kemur að því að leggja nýja gólfefnið þitt á sem bestan máta.

Fallegt eikarparket

Parket

Í nýjum húsum má aðeins leggja parket þegar minnst tveir mánuðir eru liðnir síðan lagt var í plötu og búið er að setja hita á húsið. Gólfið þarf að vera þétt í sér, hreint og þurrt (gott er að rykbinda það) og einnig er áríðandi að fjarlægja allar ójöfnur af gólfinu. Ef grunur leikur á að raki leynist í gólfum skal mæla rakastigið. Ef rakastig reynist 6% eða lægra má leggja beint á undirlagið. Ef rakinn er meiri en 8% má ekki leggja parketið.

14 mm fljótandi gólf á undirlagi

Til þess að jafna undirlagið og draga úr fótataki skal leggja undirlag úr svampi. Parketið skal lagt þannig að það myndi samræmda heild og borðin skulu skarast a.m.k. um 50 sm. Þegar borðunum er slegið saman skal alltaf slá á tappann á borðunum. Nota skal PVAC-lím. Límið er borið á nótina. Límið má ekki festa parketið við undirlagið og ekkert lím má verða eftir ofan á parketinu. Þenslurifa með veggjum þarf að vera minnst 10 mm og parketið hvergi stíft við veggi.

Heillímt stafaparket

Berið límið á hæfilega stóran flöt með tenntri sköfu. Varist að nota of mikið lím (fylgið leiðbeiningum á umbúðum). Leggið fyrstu stafina af varkárni og fylgið línunum á gólfinu. Gætið þess vel að hvergi séu glufur á milli stafa í byrjun því þær geta magnast upp þegar lengra líður á lögnina. Bankið varlega á stafina með gúmmíhamri. Þannig ná þeir að bindast líminu vel.

Til þess að parketið hafi pláss til að þenjast út er nauðsynlegt að hafa sentimeters bil með veggjum. Nýlagt parket má aldrei þekja með plasti eða vatnsheldum dúk sem getur hindrað eðlilega öndun viðarins. Forðist að ganga á nýlögðu parketinu fyrr en tveim sólarhringum eftir að það hefur verið lagt. Lágmarkstími áður en hafist er handa við að slípa og lakka gólfið er 5-20 dagar (fer eftir tegund líms og parkets).

Parket lagt eftir mynstri

Flísar

Baðherbergi

Þegar flísaleggja á baðherbergi þarf að hafa í huga úr hverju gólf og veggir eru gerðir. Til að mynda er ekki sama hvort um er að ræða gips, tré eða steinsteypu.

Einnig þarf að skipta baðherberginu í svæði með tilliti til vatnsálags og reikna út stærð hvers svæðis fyrir sig. Lím og þéttiefni eru síðan valin með tilliti til þess.

Svæðin skiptast í blautt svæði og rakt svæði. Blautt svæði þarf að vatnsverja sérstaklega með vatnsþéttri filmu en rakt svæði er rakavarið.

Útiflísar

Útiflísar þurfa að vera mjög sterkar og frostþolnar. Það sem helst ákvarðar frostheldni er vatnsdrægni, en hún má ekki vera meiri en 0,1 til 0,5% við íslenskar aðstæður vegna sífelldrar víxlverkunar frosts og þíðu.

Sú tegund flísa sem mest er notast við nefnist Porcelain Stoneware (granítlíki- gegnheilar flísar). Slíkar flísar eru bæði firnasterkar og frostheldnin er sú besta sem þekkist í dag.

Við hjá BYKO höfum kappkostað að bjóða bestu fáanleg efni til allra flísalagna og veitum fúslega allar nánari upplýsingar í gólfefnadeildum okkar.

Hvítar flísar á baðherbergisvegg
Valmynd