Bein losun gróðurhúsalofttegunda er fyrst og fremst vegna vöruflutninga og ferða starfsfólks. Ferðir og flutningar eru fyrst og fremst verkefni að takast á við án þess að teljast vera sérstök áhætta í starfseminni.
Stærsta áskorun BYKO varðandi loftslagsbreytingar er innbyggt kolefnisspor í byggingarvörum, þ.e. kolefnislosun við framleiðslu viðkomandi byggingarvöru. Það er talið að byggingariðnaðurinn standi fyrir tæplega helmingi allrar losunar koltvísýrings í heiminum en þá er rekstur mannvirkja meðtalinn. Áskorun BYKO og samtímis tækifæri er að finna og bjóða vörur með minna kolefnisspor en þær vörur sem eru ráðandi á markaðnum í dag. Þær vörur sem eru með hátt innbyggt kolefnisspor eru t.d. steypa og múrvörur, álklæðning og einangrun eins og steinull. Tækifæri BYKO felast meðal annars í aukinni áherslu á timbur í byggingum, fjölbreytt úrval klæðninga með minna kolefnisspor og íslenska steinull sem er eina steinullin í heiminum sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjafa (vatnsafli).
BYKO skilgreinir íslenska birgja sem birgja með íslenska kennitölu. Vörur íslenskra birgja geta átt sér uppruna erlendis. Hlutfall íslenskra birgja er 27% af aðkeyptum vörum og er hlutfall erlendra birgja því 73%.
Vöruúrval birgja hefur að hluta til verið greint með hliðsjón af því hvort vörurnar séu leyfilegar í Svansvottuð hús eins og lýst er í kaflanum um vistvænt vöruframboð. Einstakir birgjar hafa ekki verið greindir út frá samfélagslegum sjónarmiðum svo sem nauðungar- eða barnavinnu. Birgjasamsetning hefur þó verið skoðuð út frá landfræðilegri staðsetningu þeirra. Megnið af birgjum BYKO eru innan EES eða um 88% og þar af leiðandi um 12% utan EES, að mestu í Asíu. Það eru þeir birgjar sem þyrfti í byrjun að leggja áherslu á að skoða nánar en slíkt hefur ekki verið gert.
Hjá BYKO starfar að meðaltali 471 starfsmaður sem skiptist eftirfarandi eftir aldri og kyni.
Konur eru um 24% af starfsfólki fyrirtækisins sem er sambærilegt við síðastliðin tvö ár en þá var hlutfallið 23%. Í stjórnunarstöðum er hlutfall kvenna aftur á móti nokkuð hærra. Af þremur framkvæmdastjórum er ein kona og eru konur 40% af verslunarstjórum og í heildina 25% af stjórnendum.
Á árinu undirbjó BYKO jafnlaunavottun skv. ÍST 85:2012 og í þeirri vinnu kom fram að kynbundinn launamunur var 2,45%. Vottunin hlaust í febrúar 2020. BYKO skrifaði einnig undir jafnréttisvog FKA á árinu.
Meðalstarfsaldur karla er nokkuð hærri en meðalstarfsaldur kvenna hjá BYKO eða 6,3 ár hjá körlum samanborið við 5,0 ár hjá konum. Meðalfjarvistir vegna veikinda voru 4,2% en það hefur ekki verið greint eftir kyni eða vegna mögulegra vinnutengdra veikinda.
Mannauðsstjóri tók til starfa hjá BYKO á árinu 2018. Tilgangurinn er meðal annars að koma mannauðsmálum í formfasta ferla og innleiða úrbótarverkefni. Árið 2019 fóru fram greiningar og innleiðing á nýjum ferlum og mun sú vinna væntanlega halda áfram á árinu 2020. Það endurspeglar verkefni ársins á sviði mannauðsmála.
Á árinu var þróuð námslína fyrir alla nýja starfsmenn BYKO sem kallast BYKO skólinn. Skólinn var settur í fyrsta skipti í nóvember 2019. Í honum fá nýir starfsmenn fræðslu um gildi BYKO, sögu þess og hlutverk deilda. Einnig fá þeir söluþjálfun, sjálfstyrkingu og fleira. Áætlanir gera ráð fyrir að BYKO skólinn verði haldinn fjórum sinnum á ári.
Á fyrri hluta ársins voru haldin umhverfisnámskeið á öllum starfsstöðvum/verslunum BYKO. Á hverjum stað voru haldin tvö til fjögur námskeið til að tryggja að allir starfsmenn hefðu tækifæri til að komast á námskeiðið. Samtals voru haldin um 20 námskeið og er áætlað að rúmlega 90% starfsmanna hafi fengið fræðslu um umhverfismál.
Framkvæmd starfsmannasamtala hefur ekki verið samræmt heldur eru þau á ábyrgð hvers stjórnanda fyrir sig. Því eru ekki til áreiðanlegar tölur um fjölda starfsmannasamtala né niðurstaðna úr þeim.
BYKO býður starfsmönnum reglulega upp á flensusprautur og heilsufarsmælingar í samstarfi við Heilsuvernd. Í heilsufarsmælingunni er farið yfir mittismál, blóðþrýsting, blóðfitu, blóðsykur, hreyfingu, tóbaksnotkun og álag í starfi. BYKO fær skýrslu með upplýsingum um heildarástand starfsmanna fyrirtækisins (meðaltöl) en ekki niðurstöður fyrir hvern og einn. Samtals nýttu 32 konur og 83 karlar sér heilsufarsmælinguna. Starfsmenn hafa síðan aðgang að sérfræðingum Heilsuverndar ef þeir þess óska og nýttu 27% þátttakenda sér það. Samkvæmt samantekt skýrslunnar kemur starfsfólk BYKO ágætlega út úr heilsufarsmælingunum. Flest meðaltöl eru með svipuð gildi og meðaltöl úrtakshóps Vinnuverndar ehf.
Starfsmönnum býðst einnig að gera samgöngusamning við BYKO í samræmi við reglur Ríkisskattstjóra og í árslok nýttu 35 starfsmenn sé þann möguleika. Til að auðvelda starfsmönnum að koma hjólandi til vinnu setti fyrirtækið upp hjólaaðstöðu við nokkrar starfsstöðvar og fékk „hjólavottun“ frá Hjólafærni. Starfsmönnum stendur einnig til boða líkamsræktarstyrkur upp á 25.000 krónur.
Dagleg upplýsingagjöf og fræðsla er í gegnum Workplace. Um 90% starfsfólks hafði í lok árs skráð sig sem notanda og er markmiðið að allt starfsfólk verði skráðir notendur. Upplýsingum er einnig streymt á skjái á skrifstofusvæðum og oftar en ekki með léttu ívafi til að létta lund og ná fram brosi.
Í lok árs 2018 tók öryggissviðið við málefnum vinnuverndar hjá BYKO. Á árinu 2019 voru stofnaðar þriggja manna öryggisnefndir á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Nefndirnar eru sjö talsins og í þeim er öryggistrúnaðarmaður starfsfólks (kosinn af starfsmönnum), stjórnandi á starfsstöð (öryggisvörður) og öryggisstjóri BYKO. Meginverkefni öryggissviðs og -nefnda eru:
Forgangsmál ársins voru gerð áhættumats, undirbúningur áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað og innleiðing á þeirri áætlun. Á árinu var áhættumat framkvæmt, neyðaráætlun útbúin sem og öryggishandbók. Allir fulltrúar í öryggisnefndum hafa einnig fengið viðeigandi námskeið í öryggis- og vinnuverndarmálum. Á árinu voru haldin 44 öryggisnámskeið fyrir aðra starfsmenn og sóttu um 280 starfsmenn þessi námskeið.
Helstu aðgerðir sem gripið var til voru merkingar á vinnusvæðum. Gönguleiðir starfsmanna og viðskiptavina voru aðskildar sem og aðgengi viðskiptavina að vinnurými starfsmanna. Gönguleiðir voru endurhannaðar í Breiddinni með það að markmiði að viðskiptavinir fari ekki um afgreiðslusvæði nema í fylgd starfsmanna, sýnileikafatnaður starfsmanna var gerður að skyldu, umferðarmerkingar endurbættar og umferðarhraði var lækkaður í 10 km/klst.
Skráningu óhappa er ábótavant en BYKO í samráði við tryggingafélag sitt skoðar nú hugbúnað um vinnuverndarmál sem myndi ná yfir forvarnir, tilkynningar og lærdóm af hverju óhappi fyrir sig. Ekki er til skrá yfir minni háttar óhöpp hjá BYKO. Skráð eru 11 óhöpp á árinu, þar af fimm tilkynningarskyld slys. Fyrirtækið er með „hitakort“ yfir algengustu óhöpp og þau svæði sem mest hætta er á óhöppum og eru þau svæði í forgangi. Algengustu óhöppin eru „fall á jafnsléttu“.
Áherslur ársins 2020 verða að grípa til aðgerða í samræmi við „hitakortið“, innleiða ofangreindan hugbúnað og heildarstefnumótun í vinnuverndarmálum hjá BYKO.
BYKO leggur áherslu á innra eftirlit með rekstrareiningum fyrirtækisins. Það felst í að fyrirbyggja og greina hugsanleg mistök og sviksemi birgja, starfsmanna og viðskiptavina þess. Félagið hefur lagt áherslu á að efla eftirlit og öryggisráðstafanir. Öryggissviðið hefur á að skipa sérhæfðu starfsfólki í eftirliti með öllu sem viðkemur rekstri verslana félagsins og starfsstöðva um land allt. Öryggisstjóri stýrir sviðinu sem telur fimm starfsmenn með vörutalningarhópi. Á skrifstofu BYKO er einnig starfsmaður sem hefur innra eftirlit að sínu aðalstarfi og heyrir hann undir öryggisstjóra félagsins. Hlutverk hans er að hafa eftirlit með því að viðeigandi verklagsreglum sé fylgt í daglegum rekstri félagsins. Í því skyni er m.a. beitt sérhæfðum upplýsingakerfum.
BYKO gerir úttektir á helstu áhættuatriðum í rekstri fyrirtækisins á sex mánaða fresti. Helstu áhættuþættir sem hafa verið greindir í þessum úttektum eru misnotkun afsláttar í sölukerfi, misferli starfsmanna, aðgangur óviðkomandi að lagersvæðum og svikatilraunir í gegnum tölvupóst og netsamskipti.
Fyrirtækið leggur áherslu á að minnka möguleg misferli á ýmsan máta. Öryggismyndavélum hefur verið komið upp á öllum starfsstöðvum þar sem slíkt er heimilt út frá persónuverndarsjónarmiðum. Stjórnendur, næstráðendur og lykilsstarfsmenn hafa fengið fræðslu um verklagsreglur gegn spillingu (netnámskeið) og hafa 95 starfsmenn lokið námskeiðinu í árslok (48% markhóps). Tveir birgjar hafa verið í samstarfi við BYKO til að greina mögulega áhættu á svikastarfsemi auk þess sem hluti verktaka sem annast störf á athafnasvæði BYKO hafa fengið fræðslu varðandi áhættu á spillingu.
Á árinu komu 360 mál á borð öryggisdeildar. Langstærstur hluti þessara mála eru tengd þjófnaði viðskiptavina eða um 75%. Um 20% eru öryggisatvik og óhöpp. Sum þessara öryggisatvika eru atvik sem eru BYKO óviðkomandi, svo sem árekstrar eða sambærilegt á bílastæðum utan við verslanir BYKO. Engin atvik leiddu til þess að viðskiptasamningum var sagt upp. Aftur á móti fengu sjö starfsmenn áminningu eða uppsögn vegna atvika á árinu. Í einu tilfelli er málsókn í gangi vegna misnotkunar starfsmanns á aðstöðu í starfi.
Í þessum kafla er gerð grein fyrir efnisnotkun í daglegri starfsemi BYKO og eru þá vörur til endursölu ekki teknar með í útreikninginn.
Notkun skrifstofupappírs má skipta í þrennt: reikninga og greiðsluseðla, Rent-A-Prent og aðra skrifstofuprentun. Heildarnotkun var um 1.600.000 blöð sem samsvarar um 8.010 kg af pappír. Allur pappír er merktur með Evrópublóminu. Ekki eru til samanburðartölur frá fyrra ári nema fyrir Rent-A-Prent en prentun þar minnkaði um rúmlega 170 þúsund blöð á árinu. BYKO vinnur nú að endurskipulagningu verkferla um útsendingu reikninga og var í lok árs hætt að senda út reikninga og greiðsluseðla nema viðskiptavinir biðji sérstaklega um það. Reikningar og greiðsluseðlar eru um 65% af allri pappírsnotkun. Ef vel tekst til ætti að vera hægt að minnka pappírsnotkun um að minnsta kosti 50% á árinu 2020.
BYKO hefur að meðaltali gefið út blað tíu sinnum á ári en árið 2019 var prentun minnkuð í sjö blöð til að draga úr notkun pappírs. Markmið fyrir árið 2020 er að minnka notkun pappírs enn frekar og auka vægi rafrænnar útgáfu. Upplýsingum um aðkeypt prentefni (blöð, bæklingar og sambærilegt) var aftur á móti ekki haldið saman fyrir árið 2019. Búið er að ræða við viðkomandi birgja að halda þessum upplýsingum saman fyrir 2020 og er gert ráð fyrir að birta þær upplýsingar í næstu skýrslu. Allt prentefni var keypt frá Svanvottaðri prentsmiðju.
BYKO notar plastpoka í tvennum tilgangi, annars vegar sem burðarpoka og hins vegar sem sjálfsafgreiðslupoka fyrir smávörur svo sem skrúfur. Á fyrri hluta árs var byrjað að skipta plastpokum út fyrir bréfpoka í báðum flokkum. Nokkrar birgðir voru til á lager þannig að taka mun nokkurn tíma að losna alveg við plastpokana.
Notkun poka var eftirfarandi
BYKO er í samstarfi við AÞ-Þrif sem sér um ræstingar í verslunum og skrifstofum BYKO á höfuðborgarsvæðinu og á Selfossi, Þrif og ræstivörur á Akureyri og Allt hreint á Suðurnesjum. AÞ-Þrif eru með Svansvottun. Eingöngu eru til tölur um ræstiefnanotkun frá AÞ-Þrifum. Á árinu voru keyptir 74,7 lítrar af ræstiefnum og þar af voru 94% umhverfisvottuð.
Eldsneytisnotkun stafar fyrst og fremst vegna eigin bíla og tækja og skiptist í bensín og gasolíu (litaða og ólitaða).
Áherslur fyrirtækisins á það að skipta út hluta tækja- og bílaflota úr jarðefnaeldsneytisknúnum tækjum yfir í rafmagnsknúin virðist því vera að skila árangri.
Tölur um rafmagn og upphitun eiga við um allar starfstöðvar BYKO með undantekningu fyrir lager leigudeildar að Þórðarhöfða og verslun BYKO á Granda. Eingöngu eru til tölur fyrir 2019.
Í þessari skýrslu er eingöngu gerð grein fyrir flugferðum starfsmanna erlendis. Tölur frá fyrri árum vegna flugferða innanlands gefa til kynna að losun BYKO vegna innanlandsflugs sé 10% af losun vegna flugs erlendis.
Með fjölda ferða er átt við ferðir til og frá Íslandi. Ef teknar eru með millilendingar og ferðir á milli áfangastaða erlendis er um samtals 405 flugferðir að ræða árið 2019. Losun á aftur á móti við um allar flugferðir, þar með talið á milli áfangastaða erlendis.
Vöruflutningar eru flutningar til landsins og innanlandsflutningar. Vöruflutningar til landsins eru sjóflutningar en þar nýtir BYKO bæði Samskip og Eimskip en er einnig með leiguskip sem flytur timbur og járn frá Lettlandi. Eldsneytistölur koma frá Eimskip og Samskip. Tölur frá Eimskip eru skiptaflutningar til landsins en tölur Samskipa eru skipaflutningar með forflutningum erlendis. Tölur fyrir leiguskipið eru losunartölur reiknaðar út frá greiddu eldsneytisgjaldi sem þarf ekki að endurspegla nákvæma eldsneytisnotkun. Vöruflutningar innanlands eru flutningar á milli starfstöðva BYKO.
Upplýsingar sem eru enn sem komið er utan við umfang BYKO eru hraðsendingar til landsins með flugi sem og flutningar frá starfsstöðvum BYKO til viðskiptavina. Heildarvöruflutningar til landsins námu um 55.000 tonnum og var losun gróðurhúsalofttegunda vegna þeirra 3.848 tonn af CO2eq.
Terra (áður Gámaþjónustan) sér um megnið af úrgangsmeðhöndlun eða um 90% fyrir BYKO og taka endurvinnsluleiðir mið af þeirri þjónustu sem þau bjóða. Annar úrgangur fer til Sorpu eða Íslenska Gámafélagsins.
Úrgangstölur á milli ára eru ekki alveg samanburðarhæfar þar sem tölur fyrri ára eru eingöngu frá Terra en tölurnar fyrir 2019 fyrir alla þjónustuaðila BYKO. Úrgangur jókst þó aðeins á árinu en það stafar af því að ráðist var í tiltektarátak á ákveðnum starfstöðvum.
Um 70% af úrganginum var flokkaður en 30% var óflokkaður. Af flokkaða úrganginum fór hluti í förgun, þ.e. urðun eða brennslu. Munar þar mest um jarðefni, gler og gifs en gifs er flokkað sér og urðað þar sem ekki má urða það með öðrum úrgangi. Hlutfall úrgangs sem fór til endurvinnslu var 50%.
Ákveðið var að birta ekki tölur um losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá meðhöndlun úrgangs í þessari skýrslu. Upplýsingar frá þjónustuaðilum samanborið við tilmæli Umhverfisstofnunar hvernig beri að reikna losun eru nokkuð misvísandi. Sem dæmi má nefna að samkvæmt útreikningum frá Klöppum var losun GHL vegna úrgangs sem fór í endurvinnslu rúm 200 tonn á meðan Umhverfisstofnun segir: „Þeir úrgangsstraumar sem fara í endurvinnslu valda engri losun og hafa því losunarstuðulinn 0“.
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á árinu var 4.240,6 tonn.
Sé losun fyrirtækisins sett í samband við umfang fyrirtækisins á árinu 2019 var velta BYKO 20 milljarðar króna.
Losun í CO2eq var því 212 kg á hverja milljón í veltu fyrirtækisins.
Önnur veruleg losun á sér ekki stað frá BYKO. Það á sér ekki stað nein losun á ósoneyðandi efnum.
BYKO heldur ekki saman upplýsingum um losun á köfnunarefnisoxíði (NOx), brennisteinsoxíði (SOx) eða öðrum lofttegundum þar sem fyrirtækið hefur enga framleiðsluferla sem losa NOx eða SOx. Það væri einna helst vegna skipaflutninga. Timburskipið sem BYKO er með á leigu notar gasolíu (Marin Gasoil) með brennisteinsmagni undir 0,1%.
Losun í opna viðtaka svo sem vatn eða jarðveg er ekki viðeigandi. Allt frárennsli er tengt við skólpkerfi viðkomandi sveitarfélags.
Fyrri kafli - Framtíðarsýn og innleiðing
Næsti kafli - Markmið 2020