Hvað viltu finna?
Innskráning
Sláðu inn símanúmer

Góð ráð

Málning og litakort

Þakið

Fáðu góð ráð og ýmsar upplýsingar sem snerta málun, viðhaldi og frágangi á þaki.

Bárujárnsþak
Svartar þakskífur úr stáli

Góð ráð

Viðhald á þakstáli

Við viðhald og málun á eldra þakstáli er nauðsynlegt að hafa eftirfarandi í huga.

Fjarlægið alla lausa málningu, t.d. með háþrýstiþvotti eða sköfun. Ef brúnir á málningunni, sem eftir situr, brettast upp þarf að fjarlægja þær með beittum sköfum, t.d. kattarklóru fyrir bárujárn. Kattarklóran hentar einnig vel til að fjarlægja þykka málningu úr lágbáru.

Allt ryð þarf að fjarlægja með vírburstun eða slípun.

Salt og önnur óhreinindi þarf að þvo af fletinum fyrir málun.

Vandið sérstaklega hreinsun í kringum nagla og samskeyti á plötum.

Yfirfara þarf neglingu og skipta út lausum nöglum með skrúfnöglum.

Blettamálið alla ryðbletti með viðeigandi ryðvarnargrunni.

Að lokum eru málaðar tvær umferðir með viðeigandi þakmálningu.

Þakmálun

Það skiptir hvað mestu máli þegar þakið er málað hvenær dags það er gert. Þegar þak er málað skiptir tímasetning meira máli en þegar aðrir hlutar hússins eru málaðir. Ástæðan fyrir því er sú að hitastigsbreytingar eru meiri á þaki en á veggjum. Þök kólna fyrr á kvöldin og veldur það því að raki eða dögg fellur á þakið. Ef raki nær að myndast vill málning þorna mött sem veldur því að gæði hennar og ending verður léleg. Það getur jafnvel leitt til þess að mála þurfi aftur.

Því ber að gæta þess að gefa málningunni nægan tíma til þess að þorna áður en hætta er á að raki komist í þakið. Einnig er mjög varasamt að mála snemma dags á haustin og seint að kvöldi á vorin þar sem daggarmyndun er gjarnan meiri þá.

Litað þakstál og festingar

Allir þekkja eða kannast við gömlu góðu báruna, þessa galvaníseruðu sem þarf að mála með jöfnu millibili. Þessi gerð af þakstáli hefur ávallt verið negld niður með heitgalvaníseruðum saumi með góðum árangri og góðri endingu, enda eru allir meðvitaðir um nauðsyn þess að halda járninu við með málningu.

Á seinni árum hefur verið hægt að fá verksmiðjulitað þakstál í ýmsum litum en það hefur valdið þeim misskilningi að þar sé komið þakstál sem ekki þurfi að hugsa meira um hvað varðar málningu. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta stál þarfnast einnig viðhalds og málunar og fer það eftir staðháttum hvað sá tími er langur áður en að viðhaldi kemur.

Til að byrja með var seldur litaður galvaníseraður saumur með þessu stáli sem gat að nokkrum árum liðnum gefið frá sér ryðlit. Þetta varð til þess að farið var að selja ryðfrían litaðan saum til að forðast ryðlitun út frá nöglum. Reynslan hefur þó sýnt að þessi lausn er ekki að öllu leyti viðhaldsfrí því tæringarmyndun verður við naglahausa sem orsakast af mismunandi spennu milli ryðfrís stáls og smíðastáls (klæðningarstáls).

Best er að sem líkast efni sé í málmklæðningu og festingum því það gefur besta endingu en fylgjast þarf með þakinu, málningu og nöglum og gera ráðstafanir varðandi viðhald það tímanlega að ekki komi til alvarlegra skemmda sem bæði kosta meiri tíma og peninga að lagfæra.

Þakfrágangur inni

Nauðsynlegt er að vanda vel allan frágang þegar gengið er frá vindvarnarlagi, einangrun og rakavarnarlagi í þaki.

Milli borðaklæðningar og einangrunar sem sett er upp á milli sperra er haft loftunarbil sem er u.þ.b. 25 mm. Þetta loftunarbil er myndað með listum, 25x25 mm, sem negldir eru í sperrur upp við borðaklæðningu og er gjarnan einn á miðju sperrubili sem festur er í borðaklæðningar.

Neðst á þessa lista er fest vindvörn til þess að ekki blási kalt loft niður í einangrunina. Vindvörnin er ýmist vindpappi (veggpappi) eða olíusoðið trétex.

Algengasta einangrunin er steinull og nú á seinni tímum "þakull" sem er 180 mm þykk og með áföstum vindpappa. Ef "þakull" er notuð þá eru masonit- renningar settir ofan á plöturnar yfir samskeyti.

Gott er að halda einangrun uppi með plastborða sem heftaðir eru neðan á sperrurnar.

Neðan við einangrun er sett þolplast sem rakavarnarlag og það heftað upp með plastborða neðan í sperrur. Við veggi er gott að festa rakavarnarlagið með listum og þétta með kítti. Líma skal yfir öll samskeyti með plastlímbandi. Mjög mikilvægt er að að ganga vel frá rakavarnarlagi og loka öllum götum sem koma í það þannig að heitt loft geti alls ekki komist upp í einangrun. Ef loft kemst upp í gegnum rakavarnarlagið veldur það rakaútfellingu í einangruninni sem þýðir minni einangrun og hættu á fúa í sperrum.

Neðan við rakavarnarlagið er gjarnan sett lagnagrind fyrir rafmagnslagnir sem jafnframt er grind fyrir loftklæðningu.

Velux þakgluggar

Þakgluggarnir frá Velux eru vel þekktir hér á landi eftir áratuga veru á markaðnum. Þessir gluggar hafa staðist mjög vel íslenskar aðstæður og er vinsældum þeirra ekki hvað síst að þakka hið mikla vöruúrval í fylgihlutum.

Oft eru þessir gluggar staðsettir það hátt uppi að erfitt er að ná til þeirra frá gólfi. Í slíkum tilfellum er hægt að nota rafmagn í veggrofa til að stýra opnun glugganna en einnig er hægt að fá með þeim fjarstýringu sem gerir alla meðferð þeirra mun þægilegri. Þessum búnaði er mjög auðvelt að koma fyrir í gluggunum og skiptir þá engu máli hvort um gamla eða nýja glugga er að ræða.

Gardínur fyrir þakglugga

Einnig er hægt að fá gardínur sem eru sérstaklega framleiddar fyrir gluggana, eru mjög auðveldar í uppsetningu og fást í mörgum gerðum og litum. Hægt er að stjórna gardínunum með rafmagnsmótorum.

Hver veggrofi og fjarstýring getur stjórnað þrem aðgerðum (mótorum), hvort heldur sem er á einum glugga eða fleirum.

Einnig er hægt að fá stöng til að opna og loka gluggunum og/eða draga gardínur frá og fyrir.

Valmynd