Spónaplötur

Spónaplötur eru oftast um 90% tréspæni og 10% bindiefni. Spónninn er flokkaður, þurrkaður og síðan blandaður lími. Eftir pressun við mikinn hita eru plöturnar pússaðar.

Eldþolnar spónaplötur eru venjulega rauðar en rakaþolnar grænar.

Spónaplötur breyta sér við rakasveiflur eins og aðrar trjávörur. Það er því til dæmis ekki mælt með því að nota spónaplötur undir flísalögn.

Spónaplötur

Gipsplötur

Gipsplötur hafa hafa marga kosti umfram spónaplötur, þær eru léttari og meðfærilegri og auðvelt er að sníða þær og setja upp. Auk þess eru þær mun brunaþolnari en spónaplötur.

Hins vegar þolir gipsplatan vætu verr en spónaplatan og henni fylgja meiri óhreinindi við vinnslu. Annar ókostur er sá að venjuleg gipsplata þolir ekki mikinn þunga og ef fyrirséð er að hengja eigi þyngri hluti á vegg er ráðlegast að hafa spónaplötu undir til þess að fá nægilega festu.

Gipsplötur

Algengast er að sett sé tvöfalt lag af gipsi í milliveggi eða spónaplata á bak við gipsplötuna til styrkingar. 

Venjuleg gipsplata þolir raka illa og hentar ekki á baðherbergi eða önnur herbergi þar sem mikill raki er. Sérstakar harðgipsplötur eru notaðar í votrými sem bæði eru trefjastyrktar og rakavarðar.

Yfirborð og áferð gipsins er þannig að það auðveldar bæði málun og flísalögn, enda er einfaldara að líma á gips en spón af því að yfirborðið er sléttara.

Ítarupplýsingar

Krossviður

Krossviður er búinn til úr hringskornum eða flatskornum spæni. Plöturnar eru límdar saman út frá miðlaginu og eru lögin límd þvert á hvert annað.

Krossviður er notaður í burðarvirki jafnt og til almennra nota í byggingum.

Krossvið er hægt að verja gegn veðrun og fúa eins og annað timburefni.

Krossviður er venjulega framleiddur með rakaþolnu lími og eru plöturnar því rakaþolnar en ekki vatnsþolnar. Mótakrossviður er þó vatnsþolinn enda er hann varinn sérstaklega.

Brunaþol krossviðar er það sama og hjá gegnheilum viði. Brunaþol 10 mm platna er um 15 mínútur og 19 mm platna um 30 mínútur.

Hljóðeinangrun krossviðar er sú sama og annars plötuefnis úr timbri. Krossviður gefur góðan hljómburð sem veggklæðning eða þakklæðning.

 

Krossviður

BYKO selur helst krossvið úr furu, greni og birki og er hann flokkaður eftir útliti. Framhlið getur haft aðra gæðamerkingu en bakhlið.

  • B/BB - Aðalhlið ekki sponsuð en bakhlið sponsuð
  • BB/WG  og  BB/CP - Aðalhlið er sponsuð en bakhlið með kvistagötum
  • CX/CX  III/III  C+/C+  og  CCX - Enginn munur er á hliðum, ekki gert við kvistagöt

Fjöldi laga í krossvið eftir þykkt og tegund

Vefkökur

Velkomin í vefverslun Byko. Þessi síða notar vafrakökur (e. Cookies). Það er til þess að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að halda áfram notkun síðunnar, samþykkir þú notkun vafrakaka.